jon asbjornsson Fiskkaup hf. eru fjölskyldufyrirtæki sem formlega var stofnað 1983 af Jóni Ásbjörnssyni og fjölskyldu en sögu þess má rekja allt aftur til ársins 1950, en Jón hafði ásamt föður sínum, Ásbirni Jónssyni, rekið fiskbúð og grásleppuverkun við höfnina í Reykjavík í áraraðir. Í dag er þriðja kynslóð fjölskyldunnar við stjórnvölinn og Ásbjörn, sonur Jóns, er nú framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Í upphafi var meginmarkmið Fiskkaupa að kaupa fisk af bátum og salta eða senda ferskan í gámum til Bretlands til sölu á fiskmörkuðum. Möguleiki á útflutningi hafði þá nýlega opnast og átti Jón Ásbjörnsson frumkvæði að þessu. Einnig voru send fersk flök með flugi. Um 1988 fékk fyrirtækið fyrst allra leyfi til að selja eigin saltfiskafurðir fram hjá SÍF sem hafði haft einokun fram að því. Leyfið var fyrst takmarkað við saltfisksflök á Spán. Þetta leyfi gaf fyrirtækinu verulegt samkeppnisforskot umfram önnur þar sem mun hærra verð fékkst og tókst að byggja upp mjög góð viðskiptasambönd.

24mars1971 Fyrirtækið óx mjög hratt í kjölfar þessa og var komið með útibú í Ólafsvík, Grímsey og á Patreksfirði og meira en 100 manns í vinnu um 1993. Sama ár keypti Fiskkaup hf. 2.500 fermetra húsnæði Ríkisskipa við Reykjavíkurhöfn og breytti því í fiskverkun. Vegna minnkandi kvóta og aukinnar samkeppni um hráefnið upp úr 1995 var ákveðið að sameina fiskvinnsluna á einum stað í Reykjavík árið 1996. Starfsfólki var fækkað niður í um 60 manns við það.

Fiskkaup hóf útgerð árið 1994 með kaupum á línubátnum Alberti Ólafssyni frá Keflavík. Með útgerðinni varð reksturinn ekki eins háður innlendum fiskmörkuðum um hráefni sem þýddi jafnframt meiri stöðugleika í vinnslunni.

bygging fiskkaup Árið 2007 var húsnæði fyrirtækisins selt og hönnun og bygging nýs húss að Fiskislóð 34 hófst og var starfsemin flutt í það í ágúst 2009. Húsið er sérhannað fyrir starfsemina og er öll aðstaða eins og best verður á kosið.

Árið 2008 festi fyrirtækið svo kaup á stærra línuskipi sem fékk nafnið Kristrún, en „gamla Kristrún“ fékk nafnið Kristrún II.

Fiskkaup hf. og systurfyrirtækið, Jón Ásbjörnsson hf., reka sameiginlega skrifstofu.

 

is

gb

es